Erlent

Stór-glæpamaður of stór fyrir fangaklefa

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Kanadískum fanga var sleppt úr fangelsi áður en hann hafði afplánað dóm sinn þar sem hann var of feitur til að rúmast í fangaklefa.

Fíkniefnasalinn Michel Lapointe vegur á þriðja hundrað kílógrömm og aðstaðan í fangelsinu í Montreal sem hann afplánar í býður hreinlega ekki upp á fangaklefa sem henta slíkum líkamsburðum.

Hvorki stóllinn í klefa Lapointe né rúmið nægja honum og má nefna sem dæmi að Michel, sem hlýðir gælunafninu Stóri-Mike stendur langt út úr rúminu á alla kanta þegar hann reynir af veikum mætti að koma sér fyrir þar. Þetta telja fangelsisyfirvöld ótækt og hafa hreinlega gefist upp á þessum réttnefnda stór-glæpamanni eftir að tvö önnur kanadísk fangelsi, sem leitað var til, tóku ekki í mál að skjóta yfir hann skjólshúsi.

Í ljósi þessa var ekki margt annað í stöðunni en að veita Lapointe frelsi sem vonandi dregur ekki dilk á eftir sér. Sjálfur kveðst hann vilja lifa eðlilegu lífi, vissulega hafi honum orðið fótaskortur á hinum þrönga vegi dygðarinnar en nú hafi hann goldið samfélaginu skuldina og vilji búa sínum stórvaxna líkama önnur heimkynni en allt of þrönga fangaklefa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×