Erlent

McCain ekki hrifin af sögulegri auglýsingu Obama

Söguleg fimm milljóna dala sjónvarpauglýsing demókratans Baracks Obama á sjö sjónvarpsstöðvum í gærkvöldi hefur vakið athygli. Peningaaustur segja sumir, klókur leikur til að stýra umræðunni segja aðrir.

Obama hefur verið gangrýndur fyrir að teygja sig of langt með auglýsingunni en enginn forseti hefur áður keypt jafn dýra og langa auglýsingu á besta sýningartíma á jafn mörgum stöðvum.

Þetta eru þó smáaurar miðað við að Obama og hans fólk safnaði hundrað og fimmtíu milljónum dala - rúmum sautján þúsund milljörðum króna - í kosningasjóð demókratans bara í septembermánuði.

Stjórnmálaskýrendur segja auglýsinguna fagmannlega gerða en að ekkert nýtt hafi komið fram. Loforð um skattalækkanir fyrir lágtekjufólk í millistétt hafi verið endurtekin sem og loforð um skattaívilnanir til fyrirtækja sem ráða Bandaríkjamenn næstu tvö árin og flytja ekki störf úr landi. Obama lagði þó áherslu á að hann væri ekki fullkominn þó margir stuðningsmenn hans vildi meina það.

Repúblíkananum John McCain þótti lítið til auglýsingarinnar koma og fann að því að hún hefði orðið til að tefja upphaf lokaleiksins í úrslitakeppni hafnaboltans um stundarfjórðung.

Eftir auglýsinguna fór vel á með Obama og Bill Clinton á framboðsfundi í Flórída og það þó hollusta forsetans fyrrverandi hafi verið dregin í efa eftir ósigur Hillary Clinton í forkosningunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×