Íslenski boltinn

Dennis Bo í speglun á hné

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dennis og Willum með sigurlaun Vals í Lengjubikarkeppni karla.
Dennis og Willum með sigurlaun Vals í Lengjubikarkeppni karla.

Dennis Bo Mortensen mun fara í speglun á hné í næstu viku til að skera endanlega úr um hvort hann sé með slitin krossbönd í hné, eins og allar líkur eru reyndar á.

Hann meiddist í leik Vals og FH í Meistarakeppni KSÍ en það var síðasti leikur fyrir Íslandsmótið.

„Það eru allar líkur á því að fremra krossbandið sé slitið," sagði Willum Þór Þórsson í samtali við Vísi. „En þetta er ekki endanlega staðfest og því fer hann í speglun í næstu viku."

Það eru því yfirgnæfandi líkur á því að hann spili ekki með Val á tímabilinu. Þá er framtíð hans óráðin en samningur hans við Valsmenn rennur út að tímabilinu loknu.

„Við erum ekkert farnir að ræða framhaldið neitt sérsatklega enda er þetta vandasamt fyrir alla, þá sérstaklega hann. Dennis hefur lagt virkilega hart að sér í vetur og þetta er því mjög erfitt fyrir hann."

Willum segir að Valsmenn munu sakna hans mikið í sumar. „Hann var hrikalega drjúgur fyrir okkur í fyrra þó svo að Helgi hafi haldið honum utan liðsins lengst af. Hann er mjög fjölhæfur og gat leyst margar stöður auk þess sem hann skoraði þrjú mörk sem voru öll afar þýðingarmikil."

Valsmenn hafa fengið til sín nýjan leikmann, miðvallarleikmanninn Rasmus Hansen, og verður hann í leikmannahópi Vals gegn Grindavík í kvöld.

„Það halda kannski einhverjir að hann hafi verið fenginn í staðinn fyrir Dennis en svo er ekki. Það hefur lengi staðið til að fá hann en hann fékk sig ekki lausan fyrir nú."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×