Enski boltinn

Titanic-byrjun hjá Tottenham

Gus Poyet og Juande Ramos sitja í heitum sætum þessa dagana
Gus Poyet og Juande Ramos sitja í heitum sætum þessa dagana AFP

Tottenham er enn án sigurs í úrvalsdeildinni og tapaði í dag 1-0 fyrir Hull á heimavelli. Þetta er versta byrjun liðsins síðan árið 1912, en það er ártal sem margir tengja við frægasta sjóslys sögunnar þegar skemmtiferðaskipið Titanic fórst.

Tottenham hefur aðeins krækt í tvö stig úr fyrstu sjö leikjum sínum í deildinni, en knattspyrnustjórinn Juande Ramos er ekki á því að leggja árar í bát.

"Þetta er starf mitt, vinnan mín - óháð því hvort við vinnum eða töpum. Hugarfar leikmanna minna er gott og ég hef það á tilfinningunni að leikmennirnir vilji ná sér upp úr þessu sem fyrst. Það er hinsvegar ekki auðvelt að vinna þegar maður nær ekki að skora," sagði Ramos.

Hann vill ekki kenna sölu þeirra Robbie Keane og Dimitar Berbatov um ófarir liðsins og vandræði fyrir framan mark andstæðinganna.

"Við erum veikastir fyrir í sókninni, en ákvarðanir sem teknar hafa verið eru á ábyrgð alls félagsins. Allir eru ábyrgir," sagði Ramos.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×