Innlent

Lýsir vanþóknun yfir leynd, spillingu og græðgi meirihlutans

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon.

Ólafur F. Magnússon, fyrrum borgarstjóri, lýsir yfir vanþóknun sinni á þeirri leynd, spillingu og græðgi sem einkenna störf borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta kemur fram í bókun sem Ólafur lagði fyrir í borgarráði í dag.

Ólafur ítrekaði kröfu sína um skýr svör við fyrirspurn um launakostnað, ferða- og dagpeningakostnað, veislu- og risnukostnað hjá borginni og fyrirtækjum hennar og hvernig þessi kostnaður deilist niður á borgarstjórnarflokkana fimm.

Í ágúst- og septembermánuði lagði Ólafur fram fyrirspurnir í borgarráði um ýmsan kostnað vegna kjörinna fulltrúa og embættismanna hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækjum í meirihlutaeigu borgarinnar.

,,Lítið hefur verið um svör og alls engin svör t.d. um kostnað hjá Orkuveitu Reykjavíkur, þar á meðal um launamál hjá Orkuveitunni sem vekur spurningar um það hvort launamál o.fl. í

tíð stjórnarformennsku Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þoli ekki dagsljósið," sagði Ólafur í bókuninni.

Ólafur spurðist fyrir um fjarveru Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, á fundi borgarráðs. ,,Undirritaður spyr hverju það sæti að borgarstjóra vanti aftur á borgarráðsfund í dag vegna ferðalaga erlendis á sama tíma og fjölskyldum í Reykjavík blæðir vegna efnahagshruns, sem orsakast af spillingu og einkavinavæðingu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem nú mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur í skjóli minnihluta borgarbúa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×