Innlent

Blikur á lofti um álversframkvæmdir

Allir bankarnir þrír sem hugðust lána til álversframkvæmda í Helguvík eru komnir í þrot og ríkir óvissa um fjármögnun verkefnisins. Blikur er einnig á lofti um undirbúning álvers við Húsavík.

Byrjað var að steypa undirstöður kerskála í Helguvík um miðjan síðasta mánuð. Norðurál fjármagnar sjálft upphaf framkvæmda með eigin fé en síðan var ætlunin að þrír bankar kæmu að lánveitingu, Kaupþing, Landsbankinn og Fortis-bankinn. Þeir eru hins vegar allir komnir í þrot og ríkir nú óvissa um fjármögnun, samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2. Talsmaður Norðuráls, Ágúst Hafberg, kvaðst engu að síður bjartsýnn í dag en viðurkenndi að verið væri að endurmeta verkefnið, bæði kostnað og fjármögnun.

Undirbúningur álvers á Bakka við Húsavík er sömuleiðis í óvissu vegna fjármálakreppunnar. Forstjórar Landssvirkjunar og Alcoa á Íslandi, þeir Friðrik Sophusson og Tómas Már Sigurðsson, ræddu framhald verkefnisins í dag en þeir þurfa fyrir mánaðamót að ganga frá viljayfirlýsingu sem mótar næstu skref. Í viðtali við Stöð 2 vill Tómas Már ekki svara því hvort dregið verði úr kraftinum á verkefninu en segir að blikur séu á lofti.

Þótt álverð hafi lækkað verulega frá því það var hæst fyrr á árinu er það þó enn 36 prósentum hærra en það var daginn sem Alcoa ákvað að reisa álverið á Reyðarfirði árið 2003. Álfyrirtæki um allan heim eru hins vegar að fresta framkvæmdum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×