Innlent

Kemur ekki til greina að veðsetja auðlindirnar

Ekki kemur til greina að Íslendingar veðsetji auðlindir landsins til að tryggja aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Hann segir skilmála sjóðsins fyrst og fremst vera almenns eðlis og snerta aðgerðir sem Íslendingar þurfi hvort eð er að fara í.

Sérfræðingar frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa verið hér á landi undanfarnar vikur til að meta ástandið. Hafa þeir meðal annars fundað með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra segir tíðinda að vænta á næstu dögum.

Geir Haarde segir við Stöð 2 að engin niðurstaða sé komin í málið en að það styttist í það. Allir séu að vinna í málinu. Hann segir einnig að skilyrði þau sem IMF kann að setja fyrir aðstoð séu ekki komin fram.

Geir segir ýmsar sögusagnir í gangi um mögulega skilmála sjóðsins og biður fólk að taka ekki mark á þeim. „Ég er alveg vissu um það að það sem sjóðurinn mun ætlast til af okkur er fyrst og fremst hlutir sem eru almenns eðlils og snerta okkar efnhagsstefnu og eru sennilega að mestu leyti aðgerðir eða stefna sem við þyrftum hvort eð er að beita okkur fyrir."

Hann segir algera fjarstæðu að verið sé að ræða um að veðsetja auðlindir þjóðarinnar. „Það kæmi aldrei til greina að samþykkja slíkt."

Hann segir einnig að verið sé að vinna í því að meta fjárþörf landsins.

Financial Times fullyrðir í dag að búið sé að ganga frá björgunarpakka fyrir Ísland. Að honum komi alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem leggur til einn milljarð dollara, og seðlabankar á Norðurlöndum og í Japan leggi til fimm milljarða dollara.

„Þessi frétt er byggð mikið á getgátum," segir Geir. „Ég get ekki farið út í neinar tölur núna en við erum að vinna í málinu." Hann segir einnig að vel komi til greina að norrænu ríkin komi að málinu en að ekki sé búið að ákveða neitt um það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×