Enski boltinn

Diarra dreymir um Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lassana Diarra í leik með Portsmouth.
Lassana Diarra í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Lassana Diarra viðurkennir að það væri draumi líkast að ganga til liðs við félag eins og Real Madrid en hann hefur sterklega verið orðaður við félagið í vikunni.

Diarra kom til Portsmouth frá Arsenal í janúar á þessu ári en hefur á haustmánuðunum verið orðaður við bæði Manchester City og Tottenham.

Juande Ramos, nýráðinn stjóri Real Madrid, hefur hins vegar hug á að fá Frakkann til liðs við sig.

„Þegar Real Madrid er komið inn í myndina skipta önnur lið ekki lengur máli," sagði Diarra í samtali við spænska dagblaðið Marca. „Það væri draumi líkast að spila fyrir svo stórt félag."

Viðræður eru sagðar vera í fullum gangi og nokkuð langt komnar en Marca segir að helst beri á milli í launalið samningsins. Forráðamenn Real Madrid munu þó vera vongóðir um að hægt verði að ganga frá samningnum fyrir vikulok.

Kaupverðið var sagt nema um níu milljónum punda en það gæti hafa hækkað eitthvað eftir að hinir moldríku eigendur Manchester City voru sagðir hafa áhuga á Diarra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×