Innlent

Telur lög um rannsókn á bankahruni fela í sér stjórnarskrárbrot

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður telur að það sé stjórnarskrárbrot að skipa hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd á aðdraganda og orsökum bankahrunsins eins og nýleg lög gera ráð fyrir. Í grein sem Sigurður skrifar í Morgunblaðið segir hann að með 61. grein stjórnarskrárinnar sé slegin skjaldborg um sjálfstæði og óhæði dómenda gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Geri þetta ákvæði ráð fyrir því að dómendur gegni aðeins dómstörfum en ekki öðrum störfum fyrir ríkið. Í lögum um rannsókn á bankahruninu er gert ráð fyrir að í rannsóknarnefndinni sitji Umboðsmaður Alþingis, einn Hæstaréttardómari og einn sérfræðingur skipaður af Alþingi.

„Það er skoðun mín að þessi skipan nefndarinnar fái ekki staðist. Hæstaréttardómurum er og hefur verið óheimilt að taka að sér umboðsstörf fyrir aðra handhafa ríkisvaldsins. Sá Hæstiréttur sem formaður rannsóknarnefndarinnar kemur úr mun með störfum sínum gera alla dómendur réttarins vanhæfa til dómsstarfa ímálum, sem kunna að eiga rót sína að rekja til starfa rannsóknarnefndarinnar og líklega í öllum öðrum málum, sem falli bankanna kunna að tengjast, þar sem það er rétturinn sjálfur sem velur rannsóknardómarann. Með vali sínu á rannsóknardómaranum tekur Hæstiréttur ábyrgð á störfum hans í þágu löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Hæstiréttur verður með öðrum orðum að verja eigin gerðir um ókomin ár verði skipan rannsóknarnefndarinnar með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir," skrifar Sigurður í Morgunblaðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×