Innlent

Niðurskurðurinn mun heyrast í útvarpinu og sjást í sjónvarpinu

„Það er augljóst mál að þegar við skerum niður um 700 milljónir mun það heyrast í útvarpinu og það mun sjást í sjónvarpinu," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri um niðurskurðartillögur sem voru kynntar í dag. Hann segir þó að reynt verði að búa til eins góða dagskrá og mögulegt er fyrir þann pening sem fyrirtækið hafi úr að spila.

„Við reynum að láta þetta koma sem allra allra minnst niður á þeirri grunnþjónustu sem við erum að veita en það væri sjálfsblekking að halda að þetta hefði engin áhrif," segir Páll.

Páll fundaði með starfsfólki Ríkisútvarpsins í dag „Ég var nú bara mjög ánægður með þennan fund. Þetta var auðvitað erfitt," segir Páll. Erfitt sé að kynna aðgerðir af þessu tagi, en fundurinn hafi verið mjög góður. Hann hafi ekki fundið annað en að fólk hefði skilning á þessu þó að auðvitað væru allir óánægðir með að þetta hafi þurft að verða raunin.

Páll segir að orsakir aðgerðanna séu þær að 750 milljóna króna tap hafi orðið á síðasta rekstrarári. Gert hafi verið ráð fyrir að tap á rekstrinum yrði 200 milljónir króna. Sú hafi orðið raunin en vegna verðbólgu hafi fjármagnskostnaðurinn orðið 600 milljónum meiri en gert hafi verið ráð fyrir. Við þessu hafi þurft að bregðast en jafnframt þeirri óvissu sem ríki um framtíðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×