Íslenski boltinn

HK úr leik eftir tap gegn Haukum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Haukar eru komnir í átta liða úrslit.
Haukar eru komnir í átta liða úrslit.

Haukar sem leika í 1. deild unnu úrvalsdeildarlið HK 1-0 í sextán liða úrslitum VISA-bikarsins í kvöld. Hrakfarir HK halda því áfram en liðið er í botnsæti Landsbankadeildarinnar.

Þetta er annað árið í röð sem Haukar ná að slá út úrvalsdeildarlið í bikarnum en í fyrra voru Framarar bráð þeirra. Denis Curic skoraði eina markið í kvöld á 84. mínútu á gervigrasvellinum á Ásvöllum.

Úrvalsdeildarliðin Grindavík og Fylkir eru komin í átta liða úrslit en fimm leikir voru á dagskrá í kvöld. Þá komst 1. deildarlið Víkings Reykjavík einnig áfram með 3-0 sigri á Hamri. Víkingar reyndust of stór biti fyrir Hamar sem leikur í 2. deild. Christopher Vorenkamp, Þórhallur Hinriksson og Brynjar Orri Bjarnason skoruðu mörk Víkinga.

Grindavík vann granna sína í Reyni Sandgerði 2-1 á útivelli. Grindavík komst tveimur mörkum yfir en Andri Steinn Birgisson og Jósef Kristinn Jósefsson skoruðu. Anton Ingi Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Reyni sem leikur í 2. deild.

Þá heimsóttu Fylkismenn Garðinn og heimsóttu Víði. Staðan var jöfn 1-1 í hálfleik en í seinni hálfleik réð Árbæjarliðið ferðinni og vann á endanum 4-1 sigur. Kjartan Andri Baldvinsson skoraði tvö mörk og Hermann Aðalgeirsson og Kjartan Ágúst Breiðdal sitthvort markið fyrir Fylki. Mark Víðis skoraði Atli Rúnar Hólmbergsson.

Staðan í leik Fjölnis og ÍBV var jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því framlengt í Grafarvoginum. Fjölnir leikur í Landsbankadeildinni en ÍBV er í toppsæti 1. deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×