Fótbolti

Kristinn: Fæ stórleik í afmælisgjöf

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kristinn skokkar með dómurum í Sviss.
Kristinn skokkar með dómurum í Sviss.

„Þetta er bara algjör draumur," sagði Kristinn Jakobsson við Vísi en hann verður fulltrúi Íslands á Evrópumótinu sem hefst næstu helgi. Hann mun starfa sem fjórði dómari á mótinu og hefur verið úthlutað sínum fyrstu verkefnum.

Hann starfar við leik Austurríkis og Króatíu á sunnudag. „Það er frábært að fá fyrsta leikinn í Austurríki og það verður klárlega mikil veisla í kringum þennan leik. Við fljúgum til Vínar á laugardag," sagði Kristinn sem er nú í Sviss að undirbúa sig.

„Það er ekki verra að ég er að fara að starfa með félaga mínum Peter Vink sem dæmir leikinn. Ég hef áður starfað með honum en hann er líklega frægastur fyrir að hafa dæmt leikinn í Meistaradeildinni þar sem hann dæmdi ekki vítaspyrnu á Dirk Kuyt."

Laugardaginn 11. júní verður Kristinn síðan fjórði dómari á leik Tékklands og Portúgals. Leikur tveggja liða sem eru meðal sigurstranglegustu liða mótsins. „Þetta er sannkallaður stórleikur og ekki verra að hann verður á afmælisdeginum mínum. Ekki amalegt að fá svona leik í afmælisgjöf. Þetta er klárlega einn af stórleikjum riðlakeppninnar," sagði Kristinn.

Allir dómarar á Evrópumótinu dvelja nú saman á hóteli í Sviss. „Ég kom í fyrradag og við höfum verið í ýmsum prófum og svo hafa verið fundarhöld. Það sama er á dagskrá í dag. Við erum hér við bestu mögulegu aðstæður," sagði dómarinn Kristinn Jakobsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×