Innlent

Lára Ómarsdóttir hefur sagt upp störfum

Lára Ómarsdóttir.
Lára Ómarsdóttir.

Lára Ómarsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum hjá fréttastofu Stöðvar 2.

Hér eftir fer yfirlýsing sem Lára sendi fjölmiðlum.

"Ástæðan eru ummæli mín í netútsendingu, sem mér var ekki kunnugt um, vegna mótmæla á Suðurlandsvegi á miðvikudaginn var. Ég gerði mér ekki grein fyrir að símtal mitt við samstarfsmann heyrðist á Vísi.is en í því sagði ég í hálfkæringi að ég gæti fengið einhvern til að kasta eggi meðan við værum í beinni útsendingu. Enginn sem þekkir mig lætur sér detta í hug að mér hafi verið alvara.

Ég virði siðareglur blaða- og fréttamanna og tek starf mitt alvarlega. Þess vegna fellur mér þungt að hafa orðið þetta á og þar með orðið völd að því að trúverðugleiki minn og fréttastofunnar sem ég vinn hjá hafi að ósekju verið dreginn í efa í þjóðmálaumræðunni. Fréttaflutningur verður að vera hafinn yfir allan vafa. Sé ekki svo, getur orðspor fréttastofunnar og starfsmanna hennar beðið hnekki.

Ég þakka samstarfsmönnum mínum stuðninginn sem þeir hafa sýnt mér undanfarna daga en tel að það sé fyrir bestu að ég axli með þessum hætti ábyrgð, þótt orð mín hafi verið ætluð sem glettni og bara einum manni sem vissi sem var að engin alvara lá að baki þeim.

Þar sem ummæli mín geta valdið og hafa valdið misskilningi um starfsaðferðir mínar og fréttastofu Stöðvar 2 tel ég réttast að segja starfi mínu lausu," segir í yfirlýsingu frá Láru.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×