Erlent

120 látnir eftir loftárásir Ísraela

MYND/AP
MYND/AP

Rúmlega 120 Palestínumenn eru látnir og yfir 200 særðir eftir að Ísraelar hófu röð loftárása á Gaza-ströndina í morgun. Tugum flugskeyta hefur verið skotið á skotmörk á svæðinu, þar á meðal lögreglustöð. Gaza-svæðið hefur verið á yfirráðasvæði Hamas-samtakanna frá í júní 2007.

,,Aðgerðunum verður haldið áfram og þær víkkaðar út ef þurfa þykir," hefur Reuters-fréttastöðin eftir Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels.

Árásirnar eru gerðar til að svara fyrir flugskeytaskothríð herskáa hreyfinga Palestínumanna frá Gaza-ströndinni yfir ísraelsku landamærin undanfarna daga en tugum loftskeyta hefur verið skotið frá svæðinu.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Tzipi Livni, utanríkisráðherra, hótuðu fyrir nokkrum dögum að gera stórfellda árás á svæðið og sögðust ekki hika við að beita hernum gegn liðsmönnum Hamas-samtakanna og öðrum herskáum samtökum Palestínumanna.

Sex mánaða vopnahlé Hamas og Ísraela lauk þann 19. desember.

Palestína er klofin í tvennt. Gaza-ströndin og Vesturbakkinn, sem liggja sitthvoru megin við Ísrael, hafa verið frá því í júní 2007 undir stjórn sitthvorrar palestínsku fylkingarinnar þar sem Hamas stýrir Gaza-ströndinni og Fatah fer með völd á Vesturbakkanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×