Innlent

Kappakstur og ofsaakstur orsök banaslyss

MYND/Stefán

Rannsóknarnefnd umferðarslysa segir að ökumaður bifhjóls sem lést í slysi á Kringlumýrarbraut við Listabraut í mars á þessu ári hafi verið í kappakstri við ökumann bifreiðar og ekið á ofsahraða. Hann hafi ekki ráðið hraðann og því hafnað á kantsteini með fyrrgreindum afleiðingum.

Í skýrslu um málið á vef rannsóknarnefndarinnar kemur fram að mikil hætta hafi skapast af ökulagi mannanna fyrir aðra vegfarendur enda var töluverð umferð á Kringlumýrarbraut þegar þeir óku þar í suðurátt við Listabraut. Ökumanni bílsins tókst að taka vinstra megin fram úr bíl við Listabraut en ekki ökumann bifhjólsins og ók hann á kant og kastaðist langa leið eftir götunni.

Hann hlaut mikla höfuðáverka vegna þessa sem leiddu hann til dauða en hann var vel búinn. Ökumaður fólksbifreiðarinnar ók á brott af vettvangi en var síðar handtekinn.

Rannsóknarnefndin segir að af ummerkjum megi ráða að mennirnir hafi ekið á ofsahraða. Hámarkshraði á Kringlumýrarbraut áður en ekið er yfir gatnamótin er 60 kílómetrar á klukkustund en útreikningar benda til þess að bifhjólinu hafi verið ekið á 127 kílómetra hraða.

Rannsóknarnefndin segist hafa rannsakað nokkur banaslys undanfarin ár þar sem orsökin hafi verið ofsaakstur og kappakstur. Nefndin ítrekar fyrri ábendingu sína sem kom fram í kjölfar svipaðs atviks á Sæbraut árið 2006. „Að mati nefndarinnar ber það mikinn vott um dómgreindarleysi að ökumenn skuli stunda kappakstur á götum í þéttbýli og leggja þannig líf og limi allra nærstaddra vegfarenda í hættu. Mikilvægt er að hörð viðurlög gildi um þá sem gera sér slíkt að leik. Að mati rannsóknarnefndarinnar er ábyrgð ökumannsins sem slapp óskaddaður úr þessum hildarleik ekki síður mikil. Kappakstur á vegum og götum ætluðum almennri umferð er með öllu ólíðandi," segir í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×