Innlent

Enn engar upplýsingar um laun eins ríkisbankastjóra

Laun eins ríkisbankastjóra af þremur eru enn ekki gefin upp. Illugi Gunnarsson, segir nauðsynlegt að mál þessi séu uppá borðinu og vill að laun embættismanna almennt lækki í samræmi við það sem er að gerast í einkageiranum.

Þegar Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis, tók við starfi sínu vildi hún ekki segja hver laun hennar væru. Þegar Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, var síðan spurður um laun sín sagðist hann vera með 1950 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Stuttu seinna sagði Birna laun sín, 1750 þúsund krónur á mánuði. Þá ákvað bankastjóri Kaupþings að lækka laun sín í það það sama og Birna var með. Bankastjóri Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, vill hins vegar ekki segja hver laun hennar eru.

Þar sem um ríkisbanka er að ræða velta menn því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að þessar upplýsingar séu uppá borðinu. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er þeirrar skoðunar.

Laun bankastjóra hafa verið gagnrýnd, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrar eru með um milljón á mánuði sem margir segja þó skammarlega lítið fyrir svo ábyrgðarfull störf. Illugi segir þó það erfiða tíma vera framundan að alls staðar verði að endurskoða laun, ekki síst hjá ríkinu. Hversu mikla lækkun Illugi vill sjá getur hann þó ekki sagt til um.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×