Innlent

Skólameistari hvetur kennara til varkárni í kreppuumræðu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Einar Birgir Steinþórsson.
Einar Birgir Steinþórsson. MYND/Flensborg

Skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði sendi kennurum og öðru starfsfólki skólans bréf í byrjun október og hvatti þar til þess að stigið yrði varlega til jarðar í öllum umræðum um efnahagsástandið á Íslandi í kennslustundum.

„Ég bað menn nú bara að vera vakandi yfir því að gæta að öllu gáleysislegu tali vegna þess að fólk er misjafnt. Hér eru 900 nemendur og starfsmenn," segir Einar Birgir Steinþórsson skólameistari. Hann segir enga leið að vita fyrir fram hvernig hlutirnir snerti hvern og einn og það geti varla talist æskilegt að hleypa af stað umræðu um einstaka menn í þjóðfélaginu eða viðkvæm málefni á vinnustað sem tæplega þúsund manneskjur með tengingar í allar hugsanlegar áttir sæki.

Einar segist ekkert vita um hvort aðrir skólastjórnendur, hvort sem væri á framhaldsskóla- eða öðrum skólastigum, hefðu gefið út svipuð tilmæli. „Það er ekki verið að banna neina umræðu í skólanum, langt í frá," segir hann og ítrekar að hann hafi bara talið æskilegt að gæta fullrar varkárni.

Tengir umræðu við Íslandsklukkuna

Freyja Auðunsdóttir, íslenskukennari við Flensborg, segir að í umræddu bréfi hafi verið rætt um þá óvissutíma sem nú ríktu í þjóðfélaginu. Komin væri upp staða sem kennararnir þekktu ekki og nemendurnir þá enn síður. Væru kennarar því beðnir að fara mjög varlega í öllum umræðum um efnahagsmál og varast að hleypa umræðunni af stað, ekki síst þegar kæmi að því að ræða um hugsanlega sökudólga. Orðin „aðgát skal höfð í nærveru sálar" ættu betur við nú en nokkru sinni.

„Ég ákvað að taka þann pólinn í hæðina að fara varlega í allar umræður og helst að tala ekki um neina ákveðna aðila heldur ræða ástandið almennt," segir Freyja. Hún kennir meðal annars Íslandsklukkuna eftir Halldór Kiljan Laxness og segist ekki hika við að nota dæmi úr bókinni til að skoða atburði líðandi stundar og bera þá saman við íslenskt þjóðfélag á sögutíma Íslandsklukkunnar en bókin lýsir íslensku samfélagi undir lok 17. aldar og í byrjun þeirrar 18.

„Bókin byrjar líka á þeim nótum að verið er að ræða um sameign íslensku þjóðarinnar og hver hún sé og ég stoppa nemendur auðvitað ekkert af þegar þeir fara að ræða atburðina núna með hliðsjón af sögunni," segir Freyja enn fremur.

„Maður hugsar sig líka tvisvar um áður en maður segir einhverja brandara sem maður hefur heyrt og svo framvegis. Annars var mun meira um að efnahagsmál væru rædd í kennslustundum fyrstu dagana eftir að þetta skall allt saman á í kringum síðustu mánaðamót," segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×