Innlent

Fá 85 prósent úr Sjóði 9 hjá Glitni - Unnið að lausn annarra sjóða

MYND/Heiða

Glitnir mun í dag greiða allar eignir úr Sjóði 9 og leggja þá inn á sparnaðarreikninga í nafni hvers sjóðsfélaga í hlutfalli við eign þeirra. Fram kemur í tilkynningu bankans að 85 prósent af eignum sjóðsins verði endurgreiddar sem sé allt laust fé sjóðsins og það endurgjald sem hann fékk fyrir verðbréfasafn sitt.

Starfsmenn og stjórn sjóðsins hafi á síðustu vikum lagt höfuðáherslu á að koma verðbréfasafni sjóðsins í verð til þess að geta greitt út inneign sjóðfélaga og lágmarka þannig tap þeirra, segir bankinn og verður upphæð sjóðsfélaga lögð inn á sparnaðarreikning í þeirra nafni hjá Nýja Glitni.

„Um er að ræða sparnaðarreikning Eignastýringar sem býður bestu fáanlegu kjör hjá Glitni. Sérkjör reikningsins eru í boði fram að áramótum fyrir þá fjárhæð sem sjóðfélagar fá greidda úr sjóðnum. Reikningurinn er opinn og hægt að taka út af honum á hefðbundinn hátt, í útibúumbankans og Netbanka Glitnis. Sjóðfélögum verður sent bréf með nánari upplýsingum um útgreiðslufjárhæð og sparnaðarreikninginn," segir í tikynningunni.

Þá harmar Glitnir það að peningarmarkaðssjóðir hafi verið lokaðir að undanförnu en það hafi verið gert til þess að vernda hagsmuni sjóðsfélaga og freista þess að ná sem bestri niðurstöðu fyrir þá. Þá áréttar bankinn að allar fjárfestingar Sjóðs 9 hafi verið í samræmi við lög, reglur og fjárfestingarheimildir sjóðsins.

Aðrir peningamarkaðssjóðir, í erlendri mynt, og nokkrir verðbréfasjóða Glitnis eru enn lokaðir. Áfram er unnið að lausn þess máls og er vonast til þess að hún liggi fyrir innan tíðar þar sem hagsmunir sjóðfélaga verða, eftir sem áður, hafðir að leiðarljósi, segir í tilkynningu Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×