Innlent

Samið við SÁÁ um búsetuúrræði fyrir fyrrverandi fíkla

Borgarráð hefur samþykkt tillögu Velferðarráðs um að gengið verði til samninga við SÁÁ um rekstur búsetuúrræðis með félaglegum stuðningi.

Búsetuúræðin eru samvinnuverkefni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að markmiðið sé að veita einstaklingum úr áðurnefndum hópi húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu til hefja sjálfstæða búsetu og virka þátttöku í samfélaginu án neyslu áfengis- og vímuefna.

Samið verður við SÁÁ um 14 rými í leiguíbúðum miðsvæðis í Reykjavík. Þá verður þeim fjölgað í 20 innan hálfs árs. Heimilismönnum verður óheimilt að neyta áfengis- eða vímuefna í íbúðunum.

„Stefnt er að því að fyrstu einstaklingarnir geti flutt inn í íbúðirnar í nóvember. Þar verður vakt allan sólarhringinn," segir í tilkynningunni

Fjórir aðilar lýstu upphaflega yfir áhuga á að semja um búsetuúrræðið og var ákveðið að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina. Óvissa um húsnæði varð hins vegar til þess að borgin sleit viðræðum við Heilsuverndarstöðina og gekk til viðræðna við SÁÁ.

Segir í tilkynningunni að SÁÁ eigi að baki langa og farsæla reynslu af þjónustu og vinnu með einstaklingum og fjölskyldum vegna áfengis- og vímuefnavanda. „Við núverandi efnahagsaðstæður sé slíkt talið ótvíræður kostur. Umfang SÁÁ og þeirrar þjónustu samtakanna á sviði meðferðar og forvarna gefi auk þess möguleika á hagræðingu og samþættingu þjónustu," segir í tilkynningunni.

Samið verður við SÁÁ um búsetuúrræði til næstu þriggja ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×