Erlent

Rasmussen býður formanni systurflokks Vg til evruviðræðna

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur hefur boðið Villy Sövndal, formanni Sósíalíska þjóðarflokksins, til viðræðna um um evrumál sem ætlað er að greiða götu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Danir eigi að taka upp gjaldmiðilinn.

Rasmussen og Sövndal hafa að undanförnu skipst á skotum vegna málsins í fjölmiðlum en Sövndal, sem fer fyrir systurflokki Vinstri - grænna í Danmörku, hefur ekki viljað ljá máls á þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna. Sövndal hefur hins vegar þekkst boð Rasmussens um viðræður og segir samninga nást ef gengið verði að kröfum Sósíalíska þjóðarflokksins.

Rasmussen mun vera mikið í mun að fá sem breiðastan stuðning við þjóðaratkvæðagreiðslu um evruupptöku en Sósíalíski þjóðarflokkurinn er er sá fjórði stærsti í Danmörku.

Mikil umræða er nú um evrumál í Danmörku og hefur Rasmussen lýst því yfir að danska krónan sé Dönum hreinlega of dýr og það hafi komið í ljós í núverandi fjármálakreppu. Vextir í Danmörku séu mun hærri en í evrulöndunum, eða 1,75 prósentustigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×