Íslenski boltinn

Helgi tryggði Val sigur á KR

Helgi Sigurðsson var hetja Íslandsmeistara Vals í kvöld þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á KR í vesturbænum. Valsmenn eru fyrir vikið komnir í þriðja sæti Landsbankadeildarinnar.

KR-ingar voru talsvert betri í fyrri hálfleiknum en Helgi Sigurðsson kom Valsmönnum yfir á síðustu augnablikum fyrri hálfleiksins.

Heimamenn sóttu áfram án afláts í síðari hálfleik og sýndu lipra takta, en Helgi Sigurðsson var aftur á ferðinni á 67. mínútu og kom Val í 2-0.

Björgólfur Takefusa náði að minnka muninn fyrir KR með sínu 10. marki í deildinni og því 7. í röð þegar 78 mínútur voru liðnar af leiknum, en þrátt fyrir stífa pressu frá heimamönnum náðu þeir ekki að jafna metin.

Valsmenn komust upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum og vippuðu sér upp fyrir KR í töflunni. Valur hefur hlotið 19 stig, en KR er í fjórða með 18 líkt og fjölnir.

Nánari umfjöllun um leikinn kemur hér á Vísi snemma í fyrramálið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×