Enski boltinn

West Ham getur ekki áfrýjað niðurstöðu gerðardómsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez fór til Manchester United frá West Ham sumarið 2007.
Carlos Tevez fór til Manchester United frá West Ham sumarið 2007. Nordic Photos / Getty Images

Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér í dag yfirlýsingu þar sem fram kemur að ekkert í reglum sambandsins heimili að áfrýja niðurstöðu gerðardóms.

Sheffield United fór fram á skipan gerðardóms þar sem félagið taldi að West Ham hafi notað ólöglegan leikmann, Carlos Tevez, leiktíðina 2006-7. West Ham bjargaði sér frá falli um vorið en Sheffield United féll.

Í morgun var sagt að gerðardómurinn hafi dæmt Sheffield United í hag. United fer fram á rúma 5,2 milljarða króna í skaðabætur en annar gerðardómur verður skipaður þar sem viðurlög verða ákveðin.

„Deilan hefur verið færð fyrir gerðardóm sem var skipaður samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins," sagði talsmaður þess.

„Hvort félag skipar einn meðlim gerðardómstólsins og sá þriðji er sjálfstæður aðili sem bæði félög samþykkja að skipa í dóminn. Eftir það er málið falið í hendur gerðardómstólsins og félaganna tveggja."

„En það skal tekið fram að enska knattspyrnusambandið hafði ekkert með niðurstöðu dómsins að gera," bætti hann við.






Tengdar fréttir

West Ham þögult um niðurstöðu gerðardóms

Ásgeir Friðgeirsson, varastjórnarformaður West Ham, sagði í samtali við Vísi að félagið myndi ekki tjá sig um Tevez-málið svokallaða á þessu stigi málsins.

Gerðardómur dæmdi Sheffield United í hag

Gerðardómur hefur dæmt Sheffield United í hag vegna Tevez-málsins svokallaða. United vill fá rúma 5,2 milljarða, 30 milljónir punda, í skaðabætur frá West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×