Enski boltinn

Gerðardómur dæmdi Sheffield United í hag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez fagnar marki með West Ham.
Carlos Tevez fagnar marki með West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Gerðardómur hefur dæmt Sheffield United í hag vegna Tevez-málsins svokallaða. United vill fá rúma 5,2 milljarða, 30 milljónir punda, í skaðabætur frá West Ham.

Málið snýst um að Carlos Tevez hafi verið ekki rétt skráður sem leikmaður hjá West Ham þar sem hann var í raun eigu þriðja aðila, Íranans Kia Joorabchian.

Tevez kom til West Ham skömmu áður en Björgólfur Guðmundsson keypti félagið og var því skráning hans í höndum fyrri eigenda.

Tevez var svo lykilmaður vorið 2007 er West Ham tókst að bjarga sér frá falli á kostnað Sheffield United.

Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Tevez hafi minnst verið þriggja stiga virði fyrir West Ham. Engin sekt hefur verið ákveðin en Sheffield United fer fram á rúmar 30 milljónir punda.

Sú tala er byggð á sjónvarps- og sölutekjum sem félagið varð af sem og öðrum greiðslum sem félagið hefði fengið. Þá neyddist félagið til að selja Phil Jagielka til Everton fyrir fjórar milljónir punda þar sem liðið féll úr úrvalsdeildinni en United mat hann á átta milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×