Miðjumaðurinn Deco hefur byrjað vel með liði sínu Chelsea á Englandi eftir að hann kom frá Barcelona í sumar. Hann segist gera sér fulla grein fyrir mikilvægi leiksins gegn Manchester United á sunnudag.
Þetta verður fyrsti leikur liðanna síðan United fór með sigur af hólmi í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni í Moskvu í vor og Deco segir að þarna sé meira en stig í húfi.
"Þetta er meira en þriggja stiga leikur. Sigur á sunnudag myndi hafa tvöfalda þýðingu fyrir okkur. Það myndi breikka bilið milli okkar og United verulega og það myndi líka senda ákveðin skilaboð um að við séum tilbúnir í titilbaráttuna," sagði Portúgalinn.
"Ég veit vel hvað ósigurinn í Moskvu þýddi fyrir félaga mína í liðinu og ég er búinn að bíða spenntur eftir þessum leik síðan ég kom til Chelsea."
Cristiano Ronaldo, landi Deco, verður væntanlega í liði United í risaslagnum á sunnudag.
"Við erum ekki að einblína á Ronaldo. Hann er bara einn maður og við erum nógu sterkir til að eiga við hann," sagði Deco í samtali við Daily Star.