Enski boltinn

Ramos neitar að örvænta

nordicphotos/ getty images

Juande Ramos, knattspyrnustjóri Tottenham, kallar eftir þolinmæði stuðningsmanna liðsins. Tottenham tapaði fyrir Aston Villa á heimavelli í gær og er í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Þetta er versta byrjun Tottenham í sögu úrvalsdeildarinnar og stuðningsmenn liðsins hefðu eflaust kosið að sleppa við að byrja leiktíðina rétt eins og þá síðustu, þegar Martin Jol var rekinn eftir nokkra leiki vegna skelfilegs gengis liðsins.

Juande Ramos biður um þolinmæði því hann sé enn að stilla saman strengi með fjölda nýrra leikmanna í sínum röðum.

"Við erum bara búnir að spila fjóra leiki og leiktíðin er rétt að hefjast. Við vorum með þrjá leikmenn í hópnum í kvöld sem varla höfðu æft með okkur. Við erum eftir á í undirbúningnum og eigum erfitt tímabil fyrir höndum, en það eru nógu góðir menn í þessu liði til að koma því á rétta braut," sagði Ramos.

Hann vildi ekki kenna brasilíska markverðinum Heurelho Gomes um 2-1 tapið fyrir Aston Villa í gær, þó Gomes hafi gert slæm mistök í síðara marki Villa.

"Ég er alltaf reiður eftir svona leiki, bæði við sjálfan mig og leikmennina. Ég kenni markverðinum um það sem hann gerði rangt rétt eins og öðrum leikmönnum, en hann hélt okkur líka inni í leiknum með góðri markvörslu og mér fannst hann frábær fyrir utan þetta atvik," sagði Ramos.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×