Innlent

Hlé gert á fundum í bili - þráðurinn tekinn upp síðar í kvöld

Fundarhöldum er lokið í ráðherrabústaðnum í bili. Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra segir í samtali við Vísi að engin niðurstaða liggi fyrir en eins og greint var frá í dag hafa ráðherrar fundað með ráðgjöfum sínum og fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Jón Þór segir að áfram verði fundað í kvöld en að niðurstöðu sé ekki að vænta um aðstoð frá IMF að sinni. Hugsanlega skýrist hlutirnir í fyrramálið. Jón sagði þó að málið væri í góðum farvegi.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu í stjórnarráðinu klukkan tvö í dag eins og þeir hafa gert nær daglega síðustu daga en á fundinum í dag voru mætt þau Geir Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Árni Mathiesen, fjármálaráðherra og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Ráðherrarnir funduðu frá klukkan tvö til að verða þrjú en þá fóru ráðherrar Samfylkingarinnar á flokksfund á Grand hótel. Að honum loknum héldu fundarhöld áfram með fulltrúum IMF. Heimildir fréttastofunnar herma að verið sé að fara yfir það hvaða skilyrði sjóðurinn myndi setja fyrir aðstoð til Íslands.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×