Innlent

Blásið til Þjóðfundar 1. desember á Arnarhóli

Borgarahreyfing um Þjóðfund 1. des. blæs til Þjóðfundar á Arnarhóli þann fyrsta desember næstkomandi. Fólk er hvatt til að leggja niður störf og mæta á fundinn klukkan þrjú næstkomandi mánudag. Um er að ræða regnhlífarsamtök þeirra hópa og einstaklinga sem hafa haft sig í frammi opinberlega undanfarnar vikur vegna þess „gjörningaveðurs sem fjármálamenn, stjórnvöld og embættismenn hafa kallað yfir þjóðina," eins og segir í tilkynningu.

„Borgarahreyfingin stendur algerlega utan við alla stjórnmálaflokka og telur að núverandi stjórnvöld sem og stjórnarandstaða hafi glatað trausti landsmanna," segir ennfremur.

„Borgarahreyfingin hvetur alla landsmenn til að sýna samstöðu og krefjast breytinga á stjórn landsmála og breytinga á stjórnsýslu með því að leggja niður vinnu og mæta á Þjóðfund á Arnarhóli klukkan 15:00 mánudaginn 1. desember.

Jafnframt hvetur Borgarahreyfingin til þess að öll samtök launþega veki athygli félagsmanna sinna á fundinum og að Samtök atvinnulífsins sýni vilja sinn til þjóðarsáttar og hvetji aðildarfélög sín til að gefa starfsfólki leyfi frá störfum," segir að lokum.

Frummælendur verða:

Einar Már Guðmundsson rithöfundur

Margrét Pétursdóttir verkakona

Snærós Sindradóttir nemi

Þorvaldur Gylfason hagfræðingur

Blaz Roca (Erpur) rappar um þjóðmál

Undir þetta kvittaa:

Hreyfingin fyrir nýju lýðveldi á Íslandi, Raddir fólksins, Borgarafundur.org

Neyðarstjórn kvenna, Þjóðmálahópurinn frá lýgræði til lýðræðis, Framtíðarlandið, Anarkistar, Nýir tímar, Nóvemberhópurinn, Ábyrgð, Vald og Þjóð, Nýtt lýðveldi, Not in Our Name, Dagblaðið Nei








Fleiri fréttir

Sjá meira


×