Innlent

Helmingi fleiri greinast með lifrarbólgu B

MYND/Reuters

Þrjátíu og átta manns greindust með lifrarbólgu B á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram í nýjum Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins. Eru þetta helmingi fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Tólf þeirra sem greindust í ár eru af erlendu bergi brotnir og segir í Farsóttarfréttunum að það sé nokkuð óvenjulegt því undanfarin ár hafi nýbúar verið í meirihluta þeirra sem greinast með lifrarbólgu B. Hjá þeim stafar viðvarandi lifrarbólga yfirleitt af smiti frá móður til barns í þeim löndum þar sem sjúkdómurinn er landlægur.

Segir Landlæknisembættið að þessi aukning meðal Íslendinga á þessu ári sé því frekari vísbending um hugsanlega aukningu á misnotkun fíkniefna með sprautum og nálum og ógætilega notkun þeirra þar sem skipst er á menguðum áhöldum.

Þá kemur fram í Farsóttarfréttunum að 41 hafi greinst með lifrarbólgu C á fyrri helmingi ársins en það er svipaður fjöldi og árið 2007. Sex þeirra sem greinst hafa á þessu ári eru af erlendu bergi brotnir. Flestir þeirra sem greinast með lifrarbólgu C hafa neytt fíkniefna með menguðum sprautum og nálum.

Enn fremur greindust þrír með HIV-sýkingu á fyrri helmingi ársins. Það er sami fjöldi og á sama tíma í fyrra. Allir þrír eru af erlendu bergi brotnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×