Innlent

Fundað í utanríkisráðuneytinu um Icesave

Fundur stendur nú yfir í utanríkisráðuneytinu þessa stundina þar sem íslenskar og breskar sendinefndir ræða lausn á deilu landanna vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Sendinefndin kom hingað í gær og hófst fundurinn klukkan átta í morgun. Fyrir íslensku samninganefndinni fer Ásmundur Stefánsson sem nýverið var ráðinn sem tengiliður stjórnvalda vegna kreppunnar.

Fram kom á fréttavef Financial Times í gær að breska fjármálaráðuneytið væri að leggja lokahönd á lán til Íslendinga upp á þrjá milljarða punda, eða um 582 milljarða íslenskra króna til þess að íslensk stjórnvöld gætu staðið skil á innlánum sparifjárfeigenda hjá Icesave. Þetta hefur ekki fengist staðfest en þær upplýsingar fengust hjá upplýsingamiðstöð utanríkisráðuneytisins að líklega yrði send út tilkynning eftir fund nefndanna.

Þessu til viðbótar er norsk sendinefnd á leið til landsins en hún mun kynna sér stöðu mála og ræða hugsanlega aðstoð Norðmanna við Ísland í kreppunnni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×