Enski boltinn

Wilshere minnir á Liam Brady

Jack Wilshere vakti óskipta athygli í gær
Jack Wilshere vakti óskipta athygli í gær NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger var ekki spar á stóru orðin þegar hann lýsti leik hins unga Jack Wilshere eftir frammistöðu hans með Arsenal í 6-0 sigri á Sheffield United í enska deildarbikarnum í gær.

Hinn 16 ára Wilshere fór eins og stormsveipur úr unglingaliði Arsenal og vann sér sæti í varaliðinu - þaðan sem hann hefur svo unnið sig upp í aðalliðið.

Hann skoraði mark gegn Sheffield í gær og minnti rækilega á sig í stórsigri ungliða Arsenal.

"Hann er hljóðlátur drengur en mjög einbeittur og ákveðinn. Hæfileikar hans leyna sér ekki, það sjá allir," sagði Wenger ánægður.

"Það er mikilvægt að hlúa vel að svona drengjum þegar þeir eru á milli 16 og 19 ára gamlir og menn verða að passa að væntingarnar til þeirra verði ekki of miklar," sagði Wenger.

"Mér er sagt að hann minni mikið á Liam Brady af því hann er með gott jafnvægi," sagði stjórinn og sagðist reikna með að drengurinn ætti fyrir sér bjarta framtíð hjá Arsenal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×