Enski boltinn

Ferguson afar ósáttur við tæklingu Pogatetz

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Possebon og Pogatetz eftir tæklinguna.
Possebon og Pogatetz eftir tæklinguna. Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var afar ósáttur við tæklingu Austurríkismannsins Emanuel Pogatetz í leik Middlesbrough og Manchester United í gær.

Pogatetz tæklaði hinn unga Rodrigo Possebon illa í leiknum í gær og var sá síðarnefndi fluttur á sjúkrahús í kjölfarið. United vann leikinn, 3-1.

Possebon er þó ekki fótbrotinn eins og fyrst var óttast. „Þetta var algjörlega hræðileg tækling," sagði Ferguson. „Það sem fer samt mest í taugarnar á mér við slíkar tæklingar er að andstæðingurinn lætur alltaf eins og að hann hafi ekkert gert af sér."

United sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem staðfest var að Possebon væri ekki fótbrotinn. Honum var einnig haldið á sjúkrahúsinu í nótt svo hægt væri að skoða hvort kross- og liðbönd í hné væru sködduð.

Pogatetz fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið við nokkurra óánægju starfsmanna Middlesbrough á varamannabekknum. Það gramdist Ferguson einnig.

„Hann hefði átt að labba beint af vellinum," sagði Ferguson. „Svo fara menn á bekknum að öskra að þetta hafi ekki verið rautt og að það sé ekkert að okkar leikmanni. Gareth Southgate sýndi þó rétta hegðun. Hann baðst afsökunar og skildi vel alvarleika málsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×