Innlent

Sakar Sjálftstæðisflokkinn um að halda þjóðinni í gíslingu

MYND/Hari

Skúli Thoroddssen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sakar Sjálfstæðisflokkinn um að halda þjóðinni í gíslingu með því að neita að taka til umræðu Evrópumál.

 

Í harðorðum pistil á heimasíðu Starfsgreinasambandsins bendir Skúli á að bæði Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og ASí hafi öll haft uppi kröfur um viðræður við Evrópusambandið og hugsanlega inngöngu í sambandið. Skúli segir einnig að endurskoðun peningamálastefnunnar þoli enga bið og sé þeim mun brýnni í þeim efnahagslegu hamförum sem nú ríði á þjóðinni.

 

,,Þessir aðilar eru allir sammála um, að liggi fyrir afstaða eða ákvörðun að hefja umsóknarferli að ESB-aðild, sé það til þess fallið að lina þær efnahagslegu þjáningar einstaklinga, heimila og fyrirtækja sem óhjákvæmilega verða á næstunni. Endurreisn efnahagslífsins yrði kvalaminni," segir Skúli.

 

Hann bendir á að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hafi í Kastljósi í gær sagt að ESB-umræðan væri ekki á dagskrá enda menn uppteknir við að slökkva elda. ,,Það vekur undrun að leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, sem fyrst og fremst bera ábyrgð á þeirri peningamálastefnu sem komið hefur þjóðinni á vonarvöl, skulu enn þvælast fyrir skynsamlegum lausnum, á erfiðri leið út úr vandanum. Þeir dæla olíu á þann eld sem þeir segjast vera að slökkva og halda þjóðinni í gíslingu flokksins á meðan," segir Skúli enn fremur.

 

Þá gagnrýnir hann Samfylkinguna fyrir að hafa ekki dug til að ryðja þjóðinni braut úr gíslatökunni þrátt fyrir skýra stefnu í Evrópumálum. ,,Hin pólitíska stefnumörkun sem hrópað er eftir, bæði af aðilum vinnumarkaðarins, Verslunarráðinu og fólkinu í landinu, situr á hakanum," segir í pistli Skúla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×