Íslenski boltinn

Leifur: Leikmenn voru meðvitundarlausir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis.
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis. Mynd/E. Stefán
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, var allt annað en sáttur við frammistöðu sinna manna gegn Fram í dag.

Fram vann Fylki, 3-0, í Árbænum í dag og hefði sigurinn auðveldlega getað orðið stærri. Leifur vildu þó ekki meina að sínir menn hefðu verið yfirspenntir.

„Menn geta ekki falið sig á bak við það að hafa verið stressaðir enda leikmenn með mörg hundruð leiki á bakinu. Auðvitað eru menn spenntir en þeir eiga að nota hana til að koma af meiri krafti og ákveðni í leikinn. En menn virtust hreinlega áhugalausir og því miður get ég ekki verið með hlátursgas á hliðarlínunni. Leikmenn verða bara að gíra sig upp sjálfir," sagði Leifur.

„Það var mjög auðvelt að spila við Fylki í dag. Menn nenntu ekki að verjast og kenndu bara öðrum um. En ef þeir bregðast rétt við getur næsti leikur ekki komið nógu fljótt. Hann verður á fimmtudaginn gegn sterku liði Keflvíkinga. Ég held að það verði mjög verðugt verkefni, sérstaklega þar sem við ákváðum að byrja mótið svona."

Það hefur loðað við Fylkisliðið undanfarið að gengið á útivöllum hefur verið betra en á heimavelli. Leifur sagði það lélega afsökun.

„Við getum ekki falið okkur á bak við það. Vellirnir eru jafn stórir alls staðar og það eru ellefu í báðum liðum, alla vega lengst af. Menn fara heldur ekki á taugum við að nokkur hundruð manns séu á vellinum að hrópa og kalla. Mér sýndist reyndar nokkrir áhorfendur vera farnir um 70.-80. mínútu og þeir virðast hafa gleymt því að maður er stuðningsmaður í blíðu og stríðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×