Enski boltinn

Bilic: Peningar skipta mig ekki máli

NordicPhotos/GettyImages

Slaven Bilic, landsliðsþjálfari Króata, segist ekki vera í knattspyrnu vegna peninganna. Hann er á margfalt lægri launum en t.d. Fabio Capello hjá enska landsliðinu.

Bilic er nú að undirbúa lið sitt fyrir þriðja leikinn gegn Englendingum á skömmum tíma og leitast þar við að ná þriðja sigrinum í röð. Hann heldur áfram að vera orðaður við stjórastöðuna hjá West Ham.

"Knattspyrna hefur alltaf snúist um meira en peninga hjá mér. Ég er fyrst og fremst í þessu af því ég er stoltur og af því ég vil ná árangri. Ég hugsa aldrei um peninga þegar ég stýri landsliðinu og ég verð enn stoltari þegar við vinnum rík lið eins og England," sagði Bilic.

"Ég veit vel að króatíska knattspyrnusambandið hefur takmarkað fé milli handa og ég var á miklu lægri launum áður en ég skrifaði undir nýja samninginn á dögunum," sagði Bilic, sem framlengdi um tvö ár fyrr á þessu ári.

"Mér er alveg sama hvað Fabio Capello og stjórarnir í úrvalsdeildinni eru me í laun."

Bilic neitar enn að gefa svar um framtíð sína sem landsliðsþjálfari í ljósi orðróms um að hann muni taka við West Ham.

"Ég hef mikið verið spurður út í West Ham, en ég hef alltaf sagt að mig langi að starfa á Englandi einn daginn. Í augnablikinu er ég hinsvegar aðeins að einbeita mér að undankeppni HM enda treystir fólk á að ég komi Króatíu á HM og ég get ekki verið að hugsa um aðra vinnu á meðan," sagði hinn litríki Bilic í samtali við Mirror á Englandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×