Innlent

Álveri við Húsavík frestað

Undirbúningi nýs álvers á Bakka við Húsavík hefur verið frestað og rannsóknarboranir, sem áformaðar voru á næsta ári, slegnar af. Viljayfirlýsing Landsvirkjunar og Alcoa um verkefnið var ekki endurnýjuð nú um mánaðamótin þar sem álfyrirtækið treysti sér ekki til að leggja út í frekari kostnað við boranir að sinni.

Raforkan til álversins á Bakka átti að koma frá jarðgufuvirkjunum í Þingeyjarsýslum. Umfangsmiklar rannsóknarboranir fyrir fjóra milljarða króna voru fyrirhugaðar á næsta ári, bæði í Kröflu og á Þeistareykjum, og stóð til að Alcoa greiddi helming þess kostnaðar. Ákvörðun um framhald borana frestast um eitt ár, samkvæmt sameiginlegri tilkynningu Landsvirkjunar, Alcoa og Þeistareykja ehf.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir Alcoa vera að draga saman seglin víðsvegar um heim og félagið hafi ekki talið sig geta komið með fjármuni inn í rannsóknarboranirnar. Íslensku aðilarnir, Landsvirkjun og Þeistareykir, hafi einnig staðið frammi fyrir óvissu um fjármögnun og á hvaða kjörum hún fengist.

Ekki náðist í forstjóra Alcoa í dag, Tómas Má Sigurðsson, en hann sagði eftir fund hjá Landsvirkjun fyrr í vikunni að menn ætluðu að nýta orkuna fyrir norðan. Það gæti vel verið að ein heimskreppa skylli á en menn héldu bara áfram sínum áformum. Alcoa hefði mikinn áhuga á að kaupa orkuna.

Nýting orkulinda til stóriðju var einn helsti liðurinn sem stjórnvöld horfðu til við endurreisn efnahags landsmanna eftir bankahrunið. Þorsteinn Hilmarsson segir þetta mikið áfall, sérstaklega vegna væntinga sem hafi verið að byggjast upp á Norðausturlandi. Hins vegar standi allar vonir til þess að menn nái vopnum sínum og haldi þessara samvinnu áfram. Ætlunin sé að taka afstöðu til þess næsta haust hvort menn ráðist í rannsóknarboranir.








Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×