Erlent

Verður Hillary utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama?

MYND/AP
Barack Obama er að hugsa um að skipa Hillary Clinton í embætti utanríkisráðherra, að sögn innanbúðarmanna í herbúðum hins nýkjörna forseta. Obama virðist ætla að velja sér reynslubolta í mikilvæg embætti og til sögunnar hafa verið nefndir margir menn sem tengdust Hvíta húsinu þegar Bill Clinton var forseti. Þá er sterkur orðrómur um að Robert Gates verði hugsanlega áfram varnarmálaráðherra en hann tók við af hinum umdeilda Donald Rumsfeld síðla árs 2006.

Miklar vonir eru bundnar við störf Obama í embætti forseta ef marka má nýja skoðanakönnun sem CNN gerði nýverið. Þannig telja tveir þriðju aðspurðra að Obama muni breyta landinu til hins betra en fjórðungur telur að honum muni ekki verða ágengt. Þá eru þrír af hverjum fjórum jákvæðir í garð hins nýkjörna forseta sem þýðir að Obama er vinsælasta forsetaefni í Bandaríkjunum í að minnsta kosti aldarfjórðung, en 67 prósent voru jákvæð í garð Ronalds Reagans þegar hann hafði lagt Jimmy Carter í kosningum árið 1980.

Þá telja þátttakendur í könnuninni að Obama muni bæta samskipti kynþátta í Bandaríkjunum, bæta efnahagsástandið og koma á stöðugleika á fjármálamarkaði auk þess sem hann muni tryggja öryggi landsins betur og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×