Innlent

Mannvit verkfræðistofa opnar í Búdapest

Runólfur Maack, aðstoðarforstjóri Mannvits.
Runólfur Maack, aðstoðarforstjóri Mannvits.

Mannvit verkfræðistofa hefur opnað skrifstofu í Búdapest í Ungverjalandi. Í tilefni opnunarinnar efndi Mannvit til ráðstefnu þar ytra undir yfirskriftinni „Græn orka" þar sem fjallað var um nýjungar og tækifæri í orkumálum fyrir sveitarfélög og fyrirtæki í Ungverjalandi. Jafnframt voru kynnt þau verkefni sem Mannvit hefur unnið að á sviði jarðhitanýtingar í Ungverjalandi undanfarin tvö ár.

Síðastliðin ár hefur Mannvit í auknum mæli litið til stærri markaða. Markmiðið er að tryggja stöðugan rekstur, dreifa áhættu og viðhalda góðum vexti. Sókn erlendis verður áfram ofarlega á blaði á komandi árum en starfsemi Mannvits í Mið-Evrópu hefur vaxið vegna aukinna jarðvarmaverkefna, ekki síst í Ungverjalandi og Þýskalandi.

Runólfur Maack, aðstoðarforstjóri Mannvits og yfirmaður erlendrar starfsemi fyrirtækisins, segir að það hefði legið beint við fyrir Mannvit að hefja hefðbundna ráðgjafarstarfsemi á Mið-Evrópumarkaði í Búdapest. „Ungverjaland hefur mikla möguleika á nýtingu jarðhita og nú loks hefur orðið þar ákveðin vakning til að hagnýta hann."

Mannvit er stærsta verkfræðistofa landsins. Samkeppnisstaða Mannvits er mjög sterk hér á landi og erlendis en hún byggist á víðtækri sérþekkingu á helstu sviðum verkfræðiþjónustu. Á erlendum mörkuðum eru helstu sóknarfærin á þremur sviðum; jarðvarma, vatnsaflsvirkjana og áliðnaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×