Innlent

Vilja að listaverkasafn bankanna verði í eigu þjóðarinnar

Kristinn H. Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Kristinn H. Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. MYND/GVA

Þrír þingmenn úr jafnmörgum flokkum hafa lagt fram frumvarp sem tryggja á að öll þau listaverk sem voru í eigu stóru bankanna þriggja verði í eigu þjóðarinnar áfram.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að sú óvænta staða sé komin upp í kjölfar bankakreppunnar að verðmæt listaverkasöfn viðskiptabankanna séu aftur komin í eigu íslensku þjóðarinnar. Með frumvarpinu eigi að tryggja að svo verði áfram.

Í frumvarpi þeirra Kristins H. Gunnarssonar, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og Bjarna Harðarsonar er meðal annars vitnað til orða ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins, Guðmundar Árnasonar, í viðtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum. Þar sagði Guðmundur að listaverkasöfnin væru hluti af menningararfi okkar Íslendinga.

Talið er að verkin séu um fjögur þúsund. Um 1.700 verk voru í eigu Landsbankans, 1200 í safni Kaupþings og tæplega 1.100 í eigu Glitnis.

Þá hafa tvær þingkonur Vinstri - grænna, þær Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir, lagt fram þingsályktunar tillögu um sama efni, það er að Alþingi feli ríkisstjórninni að afhenda Listasafni Íslands til eignar og varðveislu listaverk í eigu hinna nýju ríkisbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×