Innlent

Óvinsældir Davíðs endurspegla óvinsældir Seðlabankans

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands.
Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands.

,,Það er sérstaklega sláandi hversu lítið traust sjálfstæðismenn bera til Davíðs. Ég held að þjóðin líti svo á að hann sitji þarna í skjóli Sjálfstæðisflokksins," segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur um skoðanakönnun sem birtist í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Könnunin sýndi að 90% þjóðarinnar treysta ekki Davíð í stóli seðlabankastjóra. Jafnframt sýndi hún að ríflega 80% sjálfstæðismanna styðja ekki veru hans í Seðlabankanum.

Einar segir að Davíð sé mörgu leyti andlit Seðlabankans og að þjóðin þekki hann frá fornu fari. Könnunin endurspegli því vantraust almennings til bankans.

Þá bendir Einar á að könnunin hafi verið framkvæmd áður en tilkynnt var um stýrivaxtahækkunina í dag.

,,Ég held að þeir fáu sem eftir voru sem höfðu trú á Davíð og bankanum hljóti að hafa misst hana í dag þar sem það eru ekki nema tíu dagar síðan vextir voru lækkaðir. Ég held að margir fái það á tilfinninguna að menn viti ekki alveg hvað þeir eru að gera," segir Einar.

Óvinsældir Davíðs munu koma niður á Sjálfstæðisflokknum í skoðanakönnunum, að mati Einars. ,,Við getum orðað það þannig að Davíð er ekki að hjálpa flokknum á meðan hann situr í þessu embætti."










Tengdar fréttir

90% treysta ekki Davíð sem seðlabankastjóra

Níutíu prósent þjóðarinnar treysta ekki Davíð Oddssyni í stóli seðlabankastjóra samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Mikill meirihluti sjálfstæðismanna styður ekki veru hans í Seðlbankanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×