Erlent

Sameinuðu þjóðirnar á flótta í Kongó

Óli Tynes skrifar
Brynvagnar Sameinuðu þjóðanna keyra framúr flóttamönnum sem einnig er að flýja uppreisnarmenn.
Brynvagnar Sameinuðu þjóðanna keyra framúr flóttamönnum sem einnig er að flýja uppreisnarmenn. MYND/AP

Herþyrlur Sameinuðu þjóðanna eru byrjaðar að gera loftárásir á uppreisnarmenn í Kongó, sem reka flótta stjórnarhersins.

Stjórnarherinn er á skipulagslausum flótta undan uppreisnarmönnum í austurhluta Kongós. Hermennirnir flýja á skriðdrekum sínum, trukkum og fótgangandi.

Í flóttalestinni má einnig sjá brynvagna friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna.

Herþyrlum friðargæsluliðsins hefur enn ekki tekist að stöðva sókn uppreisnarmanna að héraðshöfuðborginni Goma sem þeir nálgast óðfluga.

Og það er ekki bara herinn og Sameinuðu þjóðirnar sem eru á flótta. Óbreyttir borgarar sem verða á leið þeirra leggja einnig á flótta enda eru uppreisnarmenn alræmdir fyrir grimmdarverk.

Starfsmenn og gæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa orðið fyrir aðkasti íbúa sem eru reiðir yfir því að þeim hafi ekki tekist að stöðva sókn uppreisnarmanna.

Í Kongó er fjölmennasta gæslulið Samtakanna í nokkru landi, yfir sautján þúsund manns. Gæsluliðarnir eru allir frá öðrum Afríkuríkjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×