Enski boltinn

Besta byrjun nýliða í 115 ár

Geovanni og félagar í Hull hafa blásið á allar hrakspár í haust
Geovanni og félagar í Hull hafa blásið á allar hrakspár í haust AFP

Kraftaverkalið Hull City hefur heldur betur stimplað sig inn í sögubækurnar með frábærri byrjun sinni í ensku úrvalsdeildinni.

Liðið hefur halað inn 17 stig í fyrstu átta leikjum sínum í deildinni og það er besti árangur nýliða í efstu deild á Englandi í 115 ár. Flestir spáðu því að Hull færi rakleitt niður um deild í vor, en ef svo fer sem horfir ætti liðið að teljast nokkuð öruggt með að halda sæti sínu í deildinni.

Aðeins lið Sheffield United hefur byrjað betur í efstu deild í sögunni, en liðið krækti í 21 stig í fyrstu átta leikjum sínum árið 1893.

Reyndar er ekki langt síðan nýliðar byrjuðu álíka vel í efstu deild á Englandi. Wigan Athletic krækti þannig í 16 stig í fyrstu átta leikjum sínum þegar það vann sér sæti í úrvalsdeildinni árið 2005.

Þann árangur höfðu Huddersfield (1920), Swansea (1981), Watford (1982) og Milwall (1988) jafnað áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×