Enski boltinn

Terry stakk upp í stuðningsmenn Stoke

John Terry sýndi á sér sparihliðarnar á Britannia á laugardaginn
John Terry sýndi á sér sparihliðarnar á Britannia á laugardaginn AFP

Stuðningsmenn Stoke City fengu óvæntan glaðning á heimavelli sínum á laugardaginn eftir að lið þeirra hafði tapað fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Um hundrað af hörðustu stuðningsmönnum Stoke sátu eftir og hrópuðu svívirðingar í átt að John Terry fyrirliða Chelsea þegar hann var í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Í stað þess að ganga til búningsherbergja eftir viðtalið eins og venjulega, rölti Terry upp í stúku til áhorfendanna.

Hann spjallaði við þá í góða stund, gaf þeim eiginhandaráritanir og færði þeim að lokum keppnistreyju sína.

Stuðningsmennirnir voru að vonum hissa á þessu uppátæki varnarmannsins en gerðu sér að góðu að fá mynd af sér með kappanum og sungu nafn hans ánægðir þegar hann gekk til búningsherbergja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×