Innlent

Kortaþjónustan undirbýr skaðabótamál vegna samráðs keppinauta

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. MYND/Hörður

Kortaþjónustan fagnar þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að sekta þrjú félög á greiðslukortamarkaði um 735 milljónir króna fyrir ýmis samkeppnisbrot og undirbýr skaðabótamál á hendur félögunum.

Fram kemur í úrskurði Samkeppniseftirlitsins að brot fyrirtækjanna Greiðslumiðlunar, Kreditkorta og Fjölgreiðslumiðlunar hafi meðal annars beinst að Kortaþjónustunni og reynt hafi verið að koma því fyrirtæki út af markaði. Í tilkynningu frá Kortaþjónustunni segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sé fagnaðarefni fyrir seljendur vöru og þjónustu jafnt sem neytendur.

Haft er eftir Jóhannesi Inga Kolbeinssyni, framkvæmdastjóra Kortaþjónustunnar, að niðurstaðan komi alls ekki á óvart. „Frá því við komum inn á markaðinn 2002 höfum við vitað að samkeppnisaðilar okkar ætluðu að koma okkur út af markaðnum en við fórum að bjóða betri kjör og örari uppgjör en höfðu verið í boði á Íslandi. Okkur var beinlínis tilkynnt að það ætti að gera útaf við okkur. Við munum nú fara ítarlega yfir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Við höfum orðið fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni vegna þessa samráðs og ljóst að við munum undirbúa höfðun skaðabótamáls vegna þess," segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson.


Tengdar fréttir

Ekki var farið að reglum í ákveðnum tilfellum

Forsvarsmenn VALITORS, sem áður var Greiðslumiðlun, viðurkenna að ekki hafi verið farið að reglum í ákveðnum tilfellum á árunum 1995-2006, en félagið var ásamt tveimur öðrum sektað um samtals 735 milljónir fyrir samkeppnisbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×