Innlent

Ekki hafi þurft að breyta lögum um Seðlabanka vegna stýrivaxtaákvörðunar

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra telur ekki að breyta hefði þurft lögum um Seðlabanka Íslands vegna þeirrar ákvörðunar fyrr í vikunni að hækka stýrivexti í samræmi við samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði forsætisráðherrar út í yfirlýsingu sem kom frá Seðlabankanum í gær vegna umræðu um það hver hefði tekið ákvörðun um hækkun stýrivaxta um helming. Í yfirlýsingunni hefði í raun komið fram að ákvörðun um stýrivaxtahækkun hefði ekki verið tekin af Seðlabankanum heldur af alþjóðlegri stofnun í samstarfi við ríkisstjórnina. Stóra spurningin væri sú hvort Seðlabankinn væri vegna þessa enn sjálstæð stofnun og hvort breyta hefði þurft lögum áður en vaxtaákvörðunin var tekin.

Geir H. Haarde sagði að í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fulltrúar Seðlabankans og ríkisstjórnar hefðu átt hafi verið gert bráðabirgðasamkomulag sem kynnt hefði verið síðasta föstudag. Endanlegt samkomulag ætti eftir að fá samþykki stjórnar sjóðsins og ekki væri hægt að birta það í heild sinni. Það væri í mörgum liðum en í grunninn byggt á yfirlýsingu eða bréfi frá íslenskum stjórnvöldum sem yrði tekið fyrir á fundi stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í samkomulaginu væri gert ráð fyrir vissum sveigjanleika varðandi vaxtastigið og það hefði legið fyrir að í upphafi þyrfti að hækka vexti því það vantaði viðspyrnu á gjaldeyrismarkaði. Vaxtahækkunin hefðu þurft að koma til áður en samkomulagið yrði tekið fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Seðlabankinn tæki hina formlegu ákvörðun um hækkun vaxta og þar með gæti sá hluti samkomulagsins ekki verið leynarmál.

Valgerður sagðist ekki vera að gagnrýna hækkunina sem slíka heldur hvernig hún birtist og þau misvísandi skilaboð sem hefðu borist frá ríkisstjórninni, stjórnarflokkunum og Seðlabankanum.

Geir ítrekaði að Seðlabankinn hefði formlega tekið stýrivaxtaákvörðunina og kynnt hana enda væru þetta vextirnir sem yrðu í viðskiptum við aðra banka. Að baki ákvörðuninni lægi samkomulag þriggja aðila, sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×