Innlent

Trúaði trúbadorinn hýsti bæði morðingja og flóttamann

Andri Ólafsson skrifar
Guðlaugur Laufdal með gítarinn.
Guðlaugur Laufdal með gítarinn.

Pólverjarnir Slawomir Sikora og Premyslaw Plank voru þar til nýlega báðir leigjendur hjá Guðlaugi Laufdal athafnamanni.

Slawomir Sikora myrti tvo mafíósa í Póllandi og Plank er sjálfur meintur mafíósi og var handtekinn í gær grunaður um aðild að óupplýstu morði í Póllandi.

Guðlaugur er líklega þekktastur fyrir þætti sem hann var með á sjónvarpsstöðinni Ómega fyrir nokkru en þá fékk hann viðurnefnið trúaði trúbadorinn.

Guðlaugur leigir pólskum verkamönnum íbúðarhúsnæði og hefur í nokkur skipti haft milligöngu um að koma þeim fyrir í vinnu. Hann mun meðal annars hafa haft milligöngu um að finna vinnu handa Premyslaw Plank þegar hann kom til Hafnarfjarðar frá Kárahnjúkum.

Slawomir Sikora bjó hjá Guðlaugi á Sævangi en Plank bjó í íbúð á hans vegum á holtinu í Hafnarfirði.

Slawomir Sikora steig svo fram í gær og sagði frá því að hann væri á flótta undan Premyslaw Plank, sem Fréttablaðið greindi frá á laugardag að væri grunaður um óupplýst morð í Póllandi.

Málið vakti mikla athygli og var Plank svo handtekinn seinnipartinn í dag. Hann mun svo að öllum líkindum verða úrskurðaður í gæsluvarðhald síðar í dag þar til hann verður framseldur til Póllands.

Slawomir Sikora andar líklega léttar við þessi tíðindi en hann er alls ekki ókunnugur því að verða fyrir barðinu á hótunum frá ótýndum glæpamönnum.

Árið 1994 myrti Sikora nefnilega tvo glæpamenn úr pólsku mafíunni sem reynt höfðu að kúga af honum fé.

Málið vakti mikla athygli í Póllandi og gerð var kvikmynd sem byggð var á sögu Slawomir Sikora. Myndin hlaut nafnið Dlug eða Skuld.

Kvikmyndin vann til fjölda verðlauna og forseti Póllands náðaði Sikora í kjölfarið.

Hægt er að lesa sér til um kvikmyndina Skuld hér

Guðlaugur Laufdal sagði að bæði Plank og Sikora væru prýðispiltar sem ekki hefðu verið til vandræða á meðan þeir bjuggu hjá honum. Hann sagði hins vegar að sér hefði ekki verið kunnugt um fortíð þeirra þegar hann leigði þeim húsnæði. 

Tengdar fréttir

Búið að handtaka eftirlýsta Pólverjann

Búið er að handtaka Premyslaw Plank sem eftirlýstur var í Póllandi vegna gruns um aðild að morði þar í landi, eftir því sem Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík segir.

Rak meintan morðingja

Premyslaw Plank, sem grunaður er um aðild að hrottalegu morði í Póllandi, hefur unnið sem iðnaðarmaður í Hafnarfirði undanfarnar vikur. Honum var sagt upp störfum á laugardaginn eftir að Fréttablaðið greindi frá því að handtökuskipan hefði verið gefin út á hendur honum.

Neitar aðild að pólsku mafíunni

Przemyslaw Plank, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í kvöld vegna gruns um aðild að hrottalegu morði í Póllandi, segist vera saklaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×