Innlent

Gjaldeyrislögin sett með vilja AGS

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde

Geir Haarde forsætisráðherra telur að gagnrýni á gjaldeyrislögin, sem samþykkt voru í nótt, sé of harkaleg. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt að lögin munu stórskaða íslenskt viðskiptalíf og krefst þess að þau verði tekin til baka.

Forsætisráðherra segir að með lögunum sé verið að tryggja varnir gegn því að gengi krónunnar lækki. „Það er nauðsynlegt að okkar dómi og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hafa þennan viðbúnað," sagði Geir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. Geir ítrekaði að þessi lög yrðu ekki til langframa og að þau yrðu jafnvel endurskoðuð fyrir mars á næsta ári. Hann viðurkenndi að það væri óvissa í þessu máli en lögunum væri ætlað að koma í veg fyrir fjarmagnsflótta og tryggja að gjaldeyri kæmi inn í landið. Aðspurður sagðist Geir telja að lögin stæðust EES samninginn

Geir viðurkenndi að hætta væri á því að fyrirtæki myndu geyma gjaldeyri erlendis ef lögin væru hugsuð til framtíðar en lagði áherslu á að þau væru einungis hugsuð til skamms tíma. Hann sagði að það væri hagur fyrirtækja að þetta gengi upp og hann sæi ekki ávinning þeirra af því að grafa undan markmiðunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×