Íslenski boltinn

Atli: Ég beit mig sjálfur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Jóhannsson gengur af velli í gær.
Atli Jóhannsson gengur af velli í gær.

Atli Jóhannsson þurfti að fara snemma af velli í leik KR og Fylkis í gær eftir að hafa lent í samstuði við Guðjón Baldvinsson liðsfélaga sinn hjá KR.

Óttast var að Atli hefði brotið tennur en svo fór þó ekki. Tvær framtennur bognuðu þó illa og hann hlaut fimm slæma skurði í andlitinu.

„Ég man reyndar lítið eftir þessu en við skellum saman þannig að tennurnar mínar skella á hausinn á honum," sagði Atli í samtali við Vísi. „Við það fór tvær framtennur í 45 gráðu beygju aftur í góm en það brotnaði ekkert sem er jákvætt. En ég hef greinilega bitið mig sjálfur svo illa að ég hlaut fimm skurði í andlitinu og þar af einn djúpan. Það var heppni að sá skurður fór ekki alveg í gegn."

„Ég lít út eins og fílamaðurinn í dag og við skulum orða þannig að það er ágætt að maður sé búinn að ná sér í konu," sagði hann og hló.

Atli naut góðs af því að faðir eins liðsfélaga hans, Kristins Magnússonar, er tannlæknir og fór upp á sjúkrahús með honum. „Hann í raun bjargaði mér alveg og rétti tennurnar eins og ekkert væri. Þetta hefði getað orðið miklu verra en það var."

Atli er búinn að vera meiddur lengst af á tímabilinu en þetta var í fyrsta skipti á tímabilinu í gær sem hann var í byrjunarliði KR.

„Ég er búinn að vera einstaklega óheppinn. Þegar ég er búinn að ná góðum bata á einu kemur eitthvað annað í staðinn. Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég verð lengi frá í þetta skiptið en vonandi verður það ekki meira en 2-3 vikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×