Innlent

Þorgerður vill efla menntakerfið til að styrkja atvinnulausa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að hagspá Seðlabankans sé mjög dökk. Hún vill efla menntakerfið til að styrkja þá sem verða atvinnulausir.

„Já, hún er mjög dökk. Ég dreg ekkert undan í því, en ég held að það sé miklu betra að við segjum hlutina eins og þeir eru," segir Þorgerður Katrín. Hún segist telja það betra að stjórnvöld viðurkenni að það séu erfiðir tímar framundan, með atvinnuleysi og erfiðleikum fyrir heimilin í landinu. „Við þurfum að setja fram markvissa áætlun um það hvernig við ætlum að taka á erfiðleikum fyrirtækja, erfiðleikum Íslendinga, í hvaða farveg við ætlum að beina til dæmis atvinnulausum," segir Þorgerður Katrín. Þorgerður segir mikilvægt að vera í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á sem flestum sviðum. „Við eigum að fara saman í gegnum þessa erfiðleika," segir Þorgerður.

Þá segist Þorgerður vilja nýta mjög mikið kosti og sveigjanleika menntakerfisins til að styrkja atvinnulausa. Þetta sé hægt að gera með því að efla háskólana og rannsóknir, styrkja sprotafyrirtæki og efla nýsköpunarsjóðinn. Þá vilji hún opna framhaldsskólann, styðja við símenntunarmiðstöðvarnar og opna frekar fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

„Meðan fólk er að bíða að þá á það að nýta tímann til að fjárfesta í framtíðinni þannig að staða þeirra verði sterkari þegar það kemur út úr einhverjum atvinnuleysistíma," segir Þorgerður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×