Innlent

Rannsaka þarf hvort lög hafi verið brotin hjá FL Group

MYND/GVA

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra telur að þar til bærum yfirvöldum beri að rannsaka það hvort ólöglega hafi verið staðið að flutningi á þremur milljörðum króna úr FL Group fyrir þremur árum. Þetta sagði hann í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á fréttum helgarinnar og síðustu viku. Benti hann á að því hefði verið haldið fram að menn hefðu tekið þrjú þúsund milljónir úr almenningshlutafélagi og vísaði Bjarni þar til fregna af meintum ákvörðunum Hannesar Smárasonar, stjórnarformanni FL Group, að lána Pálma Haraldssyni þrjá milljarða til að kaupa flugfélagið Sterling.

Þá benti Bjarni einnig á fregnir af því að starfsmenn Kaupþings hefðu fengið felldar niður ábyrgðir vegna hlutabréfakaupa í félaginu. Sagðist hann beina fyrirspurnum til iðnaðarráðherra því það háttaði svo til að makar tveggja ráðherra kæmu hér við sögur. Þar átti hann við Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu forsætisráðherra, sem sat í stjórn FL Group, og Kristján Arason, eiginmann menntamálaráðherra, sem vinnur hjá Kaupþingi. Vísaði Bjarni til þess að menntamálaráðherra hefði sagst vilja alla hluti uppi á borði og spurði hann því Össur hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera til að tryggja það.

Össur svaraði því til að hann að teldi skoða yrði af þar til bærum yfirvöldum og rannsakað hvort þrír milljarðar króna hefðu verið teknir í heimildarleysi út úr hlutafélaginu FL Group. Ef tilefni væri til ákæru yrði hún væntanlega lögð fram. Hins vegar væru menn saklausir uns sekt væri sönnuð.

Þá vísaði hann til þess að dómsmálaráðherra hygðist brátt leggja fram frumvarp um embætti sérstaks saksóknara sem ætti að skoða aðdraganda hruns bankanna. Þetta væri hluti af þeirri allsherjarrannsókn sem þingheimur væri sammála um að ráðast í. Ekkert ætti undan að draga og allt ætti að koma upp á borðið, sama í hvaða stöðu menn væru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×