Innlent

Borgin hætt að taka við lóðum

MYND/Vilhelm

Reykjavíkurborg er hætt að taka við lóðum frá fólki og endurgreiða lóðagjöld eftir því sem segir á vef Neytendasamtakanna.

Þar segir af konu sem hugðist skila inn lóð en hún kom að lokuðum dyrum hjá borginni og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Í kjölfarið sendu Neytendasamtökin fyrirspurn til borgarinnar og fengu þau svör að ákveðið hefði verið að stöðva skil á lóðum og endurgreiðslu lóðagjalda, að minnsta kosti fyrst um sinn. „Aðgerðarhópur á vegum borgarinnar mun vera að móta tillögur varðandi lóðaskil og endurgreiðslu og er vonast til að borgarráð taki málið fyrir fljótlega. Þá verður tekin afstaða til þess hvort og með hvaða hætti hægt verður að skila inn lóðum," segir á vef Neytendasamtakanna.

Þau segja enn fremur eðlilegt að borgin kynni málið betur fyrir borgarbúum og setji mikilvægar upplýsingar sem þessar á heimasíðu sína hið fyrsta. Mikið hafi verið rætt um skort á upplýsingagjöf undanfarið og sé ástæða til að undirstrika mikilvægi þess að fólk sé vel upplýst um stöðu mála. „Neytendasamtökin vonast til þess að Reykjavíkurborg sem og önnur sveitarfélög heimili áfram lóðaskil. Heimilin búa við allt aðrar og erfiðari aðstæður nú og ljóst er að það mun setja mörg heimili í uppnám ef ákveðið verður að hætta að taka við lóðum," segir enn fremur á vef Neytendasamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×